Lög félagsins

1.gr.

Félagið heitir Félag áhugafólks um Downs heilkenni fta, einnig nefnt Downs félagið. Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

2. gr.

Tilgangur félagsins er;

að standa fyrir og veita fræðslu um Downs heilkennið og um hagsmunamál félagsins.

að standa fyrir og stuðla að samveru félagsmanna og fjölskyldna þeirra.

að veita einstaklingum með DH, foreldrum og fjölskyldu upplýsingar, stuðning og aðstoð.

að gæta réttinda og hagsmuna einstaklinga með Downs heilkenni á opinberum vettvangi og með beinum hætti þegar við á.

Félagið er fjármagnað með félagsgjöldum, styrkjum og öðru sjálfsaflarfé. Eingöngu er heimilt að ráðstafa fjármunum félagsins í samræmi við tilgang félagsins.

3.gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að bjóða reglulega upp á fræðslu fyrir félagsmenn sem og almenning.

Heimasíða félagsins og samfélagsmiðlar skulu vera lifandi vettvangur fjölþættrar fræðslu og kynningar á Downs heilkenni.

Félagið stendur fyrir samveru félagsmanna með reglulegum hætti, þ.m.t. á alþjóðlegum degi Downs heilkennis þann 21.3 ár hvert.

Félagið gætir réttinda og hagsmuna er varða Downs heilkennið og einstaklinga með DH og skal vekja athygli á hagsmuna- og baráttumálum félagsins eins og við á.

4.gr.

Félagar geta allir þeir orðið sem áhuga hafa á málefnum einstaklinga með Downs heilkenni og vilja stuðla að velferð og réttindum einstaklinga með Downs heilkenni.

5.gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins skuldlausir félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.

6.gr.

Aðalfund skal halda innan sex mánaða frá lokum reikningsárs ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Til almennra félagsfunda skal boða með sama hætti og aðalfundar. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

  2. Skýrsla stjórnar lögð fram

  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar

  4. Lagabreytingar

  5. Ákvörðun félagsgjalds

  6. Kosning stjórnar

  7. Kosning skoðunarmanns reikninga

  8. Önnur mál

7.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 5 einstaklingum, formanni og 4 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Einnig skal kjósa 1 varamann. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

8.gr.

Á aðalfundi skal kjósa skoðunarmann úr hópi félagsmanna ásamt varamann. Skulu hann rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna, félagsmanna eða starfsmanna félagsins. Trúnaðarmenn sem kosnir eru úr hópi félagsmanna mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.

9.gr.

Reikningsár er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt fyrir endurskoðanda, skoðunarmann eða trúnaðarmann eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund

10.gr.

Félagsgjöld greiða félagsmenn og eru þau ákvörðuð á aðalfundi. Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.

11.gr.

Samþykki stjórnarfundar og síðan 2/3 hluti greiddra atkvæða á aðalfundi þarf til að félagið verði lagt niður og því slitið. Verði það samþykkt skulu allar eignir félagsins renna til Landssamtakanna Þroskahjálp.

12.gr.

Þar sem ákvæði þessa samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi dags. 16. maí 2023.