Snemmtæk íhlutun

Snemmtæk íhlutun er það kallað þegar reynt er á markvissan hátt að hafa áhrif á þroskaframvindu barna með frávik í þroska eins snemma og unnt er á lífsleiðinni. 


Tímabilið frá fæðingu til 6 ára aldurs er það tímabil í lífi barna sem snemmtæk íhlutun er yfirleitt miðuð við. Aðal áhersla er lögð á að íhlutunin hefjist sem fyrst eftir að frávik í þroska greinist.

Börn með Downs-heilkenni greinast yfirleitt mjög fljótlega eftir fæðingu og er talið að næmiskeið þeirra nái yfir sama tímabil og annarra barna. Því er mjög mikilvægt að hefja markvissa örvun fljótlega eftir fæðingu. 

Snemmtæk íhlutun beinist aðallega að vitsmunaþroska, hreyfiþroska, félagslegum stuðningi við fjölskyldu og læknisfræðilegum þáttum. Ráðgjöf fagaðila, til foreldra barna með Downs-heilkenni, um markvissa örvun er mjög mikilvægur þáttur til að ná fram þeirri hámarks hæfni sem einstaklingurinn býr yfir. 

ítarlegri upplýsingar um snemmtæka íhlutun má m.a. finna á vef Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins, www.greining.is