Kári Þorleifsson fæddist í Reykjavík 16. mars 1982. Hann andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 16. mars 2011. Foreldrar hans eru Guðný Bjarnadóttir læknir, f. 1952, og Þorleifur Hauksson íslenskufræðingur, f. 1941. Systkini Kára eru: 1) Ari læknir, f. 1969, móðir hans er Svava Aradóttir, f. 1945, maki Ara er Mette Gammelgaard hjúkrunarfræðingur, f. 1966. Börn þeirra eru Mathilde, f. 2000, og Jóhann, f. 2008. 2) Þórunn, f. 1979, í kandídatsnámi í sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla. 3) Álfdís, f. 1984, meistaranemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Foreldrar Guðnýjar: Bjarni Einarsson, 1917-2000, og Sigrún Hermannsdóttir, f. 1919. Ástvinur Guðnýjar er Sveinbjörn Egill Björnsson, f. 1951. Foreldrar Þorleifs: Haukur Þorleifsson, 1903-1990, og Ásthildur Gyða Egilson, 1911-2005. Maki Þorleifs er Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir, f. 1953. Kári flutti rétt fyrir eins árs afmælið með fjölskyldu sinni til Uppsala í Svíþjóð. Hann átti þar heima næstu átta ár og hóf þar skólagöngu sína. Eftir heimkomuna var hann fyrst í Safamýrarskóla, síðan Öskjuhlíðarskóla og loks Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þaðan sem hann lauk burtfararprófi á starfsbraut 2002. Kári hefur síðan verið nemandi í Fjölmennt í ýmsum námsgreinum. Næstum í tvo áratugi var hann nemandi í Tónstofu Valgerðar, og mestan hluta þess tíma var hann virkur meðlimur í Bjöllukór Tónstofunnar sem hefur komið víða fram opinberlega við góðan orðstír. Kári vann mörg ár í Gylfaflöt og síðan í Vinnustofunni Ási og síðustu árin í Bjarkarási. Kári ferðaðist til margra landa í fríum sínum og hafði yndi af tónlist, leikhúsferðum og sundi, svo eitthvað sé nefnt. 2005 flutti Kári að heiman á áfangaheimili í Drekavogi 16 og hefur búið þar síðan. Útför Kára verður gerð frá Áskirkju í dag, 25. mars 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Kári in memoriam.

Í dag eru liðin 30 ár frá fæðingu Kára sonar míns og eitt ár síðan hann var úrskurðaður látinn af völdum bráðrar heilahimnubólgu. Mikill harmur var að fjölskyldu hans kveðinn við snöggt og óvænt fráfall hans. Í raun snerist tilveran á hvolf, kjölfestan var farin. Við sem stóðum honum næst þurftum að endurraða okkur í bátinn til að halda jafnvægi svo ég noti líkingamál.  Hann var límið milli svo margra sem að honum stóðu og það er vandséð hvernig á að fylla það skarð sem  myndaðist og finna þeim sterku tilfinningum farveg  sem við bárum til hans. Stundum finnst mér eins og þessar góðu tilfinningar finni ekki neina leið núna og hverfi út í himingeiminn. Það var svo gaman að vera með honum að maður hugsaði um það daglega hvenær maður myndi hitta hann næst. Nærveran, kærleikurinn og gamansemin var svo gefandi að án hans var tilveran óhugsandi .

Kári fæddist með Down´s heilkenni og það verður að viðurkennast að nýorðin þrítug móðirin leit ekki björtum augum á framtíðina eftir fæðingu hans. En það var enginn annar en Kári sjálfur sem sannfærði mig um að þessi aukalitningur skipti ekki máli fyrir okkar samband. Móðurástin var ekkert minni fyrir það. Lífshamingjan stjórnast ekki af ytri aðstæðum eða greindarvísitölu, heldur hvernig og hvað maður gerir úr því sem manni er gefið. Kári hafði ágæta heilsu, gaf mikið af sér og endurgalt margfalt alla þá ást sem við gátum gefið honum. Hans tilfinningagreind var á mjög háu stigi og skopskynið  takmarkalaust. Enda eru til ótal gamansögur sem tengjast Kára, um hinar ýmsu uppákomur sem gátu orðið og einnig þegar hann gerði góðlátlegt grín að óförum annarra. Hann olli mér aldrei vonbrigðum heldur þvert á móti gladdist maður yfir öllum framförum sem hann sýndi og hann þroskaðist í yndislegan ungan mann sem  elskaði lífið og fjölskylduna.  Hann átti mörg heilbrigð áhugamál, var fordómalaus, umburðarlyndur og vinnufús, alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt. Er hægt að biðja um fleiri góða eiginleika í ungum syni sínum?  Hann var ekki að ergja sig yfir takmörkunum sínum, en gladdist þeim mun meira yfir möguleikum sínum. Hann vissi að maður er manns gaman og heilsaði glaðlega öllum sem á vegi hans urðu. Flestir tóku undir kveðjuna og úr varð bros á báða bóga, en mikið gat hann orðið sár þegar hann merkti að ekki kunnu allir að taka kveðju hans.  Enginn varð svikinn af því að kynnast Kára því skemmtilegri og jákvæðari félaga var ekki hægt að hugsa sér. Hann jók á lífsgæði okkar sem að honum stóðu á svo margan hátt. Hann hélt fast í allar hefðir í kringum hátíðir og afmæli. Hann tók t.d. ekki annað í mál en að hann og ég færum á aðventunni og keyptum jólatré saman og helst máttu þau ekki vera lítil, en við sömdum um stærðina á trénu á sölustaðnum. Ég var farin að sjá mig fyrir mér níræða að kaupa jólatré með sextugum syni mínum- og  hlakkaði til þess um ókomin ár. Öll fjölskyldan stóð með honum í að halda jól og afmæli eins og hann langaði til og úr varð hin besta skemmtun fyrir okkur öll. Hann var mikill gleðigjafi og það stóð ekki til að breyta þessu svo lengi sem stætt væri. En svo  gaf tilveran okkur heldur betur utan undir þegar hann, sem við reyndum að vernda eins og við gátum, veiktist og duldi einkenni sín svo vel, að þegar loksins uppgötvaðist hvað þetta var alvarlegt var það of seint.  Hann gat verið mjög dulur á sársauka og veikindi, bar allt slíkt í hljóði og vildi sem minnst afskipti þegar þannig stóð á. Hann hafði í mörg ár þjáðst af slæmum psoriasis en alltaf var hann ólatur að fara í ljós og böð þegar þess þurfti. Hann kvartaði aldrei yfir örlögum sínum. Við eyddum saman nokkrum dögum  í Bláa Lóninu í desember  2010 og er ég nú glöð að hafa átt  þessa friðsælu daga með honum.

Mér er minnisstætt eitt andartak sem ég upplifði svo sterkt með Kára þó hann hafi sennilega ekki gert sér grein fyrir því sjálfur hvað hann hjálpaði mér mikið þá. Ég heimsótti  hann á húðdeildina þar sem hann var innlagður. Ég kom til hans tætt, þreytt, óánægð. Hann leit upp þegar ég kom inn og úr augum hans skein ró og friður. Um leið féll líka ró yfir mig og ég áttaði mig á hvað allt sem hafði truflað mig var mikill hégómi. Kári miðlaði til mín hvað það var sem skipti máli.

Ég sakna Kára hvern einasta dag. Ég er ósátt fyrir hans hönd að ævin varð ekki lengri því honum fannst gaman að vera til  og hann bað ekki um mikið.  Hann gaf meira en hann tók.  Auðvitað var ekki alltaf bara gaman, hann gat átt sínar erfiðu stundir eins og allar manneskjur. Sérstaklega gat skortur hans á tjáningu með orðum valdið misskilningi, það var ekki alltaf sem maður vissi hvað hann vildi. Yfirleitt leysti hann málið sjálfur með táknum eða bendingum. Hann sýndi oft mikla þolinmæði í garð hins skilningsvana. Sem dæmi um hvernig hann gat leyst vandræði sem aðrir bökuðu honum af skynsemi og rökvísi langar mig að segja frá einni uppákomu sem tengist ferðaþjónustu fatlaðra. Bílstjórinn lét hann fara einan úr bílnum á kolvitlausum stað þar sem  Kári þekkti sig ekki.  Fyrir tilviljun var þetta beint fyrir utan rakarastofu hér í bæ. Og hvað gerir Kári? Jú það eina sem var rökrétt í stöðunni, hann gekk inn og lét klippa sig þó það hafi alls ekki staðið til.  Að klippingunni lokinni settist hann og beið eftir að verða sóttur. Það dróst að vísu því enginn vissi til að byrja með hvar hann væri. En minn maður beið bara þolinmóður og gerði gott úr öllu saman.

Síðustu árin sem hann lifði voru sem betur fer mjög  góð. Hann bjó með góðu fólki í Drekavogi , var í áhugaverðri vinnu í Bjarkarási  og stundaði  þroskandi áhugamál (Tónstofa Völu og margt fleira ).  Í frístundum gerði hann svo margt, þó honum þætti einna best að horfa á uppáhaldsmyndirnar sínar. Hann var mikill sundmaður og stundaði  sund reglulega.  Synti eins og selur og hafði yndi af að kafa í kringum mömmu sína eða fara í rennibrautina. Einnig ferðaðist hann bæði innanlands og utan og betri  ferðafélaga var ekki hægt að hugsa sér. Á flestum ferðalögum var stefnan tekin  þangað sem var heitur pottur, sundlaug eða baðströnd.

Kári lifði ekki til einskis. Það sást best á öllum þeim fjölda sem kvaddi  hann í Áskirkju 25. mars 2011 að hann hefur haft áhrif á samtíðarmenn sína.  Hann skilur eftir sig miklar og góðar minningar sem gefa birtu í hjörtum. Systrum hans fannst heimurinn versna við fráfall hans og það má til sanns vegar færa að heiminn munar um hvern góðan mann eins og hann. Það er tákn um gjafmildi hans að hann gat eftir dauða sinn gefið mörgum einstaklingum nýtt líf með líffærum sínum. Gjöfin var svo mikil að tvær þotur voru sendar frá Svíþjóð um miðja nótt að sækja þessar stóru gjafir. Stærri gjöf getur enginn maður gefið og það á sjálfan afmælisdaginn sinn .

 Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,

sem ung á morgni lífsins staðar nemur,

og eilíflega, óháð því sem kemur,

í æsku sinnar tignu fegurð lifir?

Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki

um lífsins perlu í gullnu augnabliki.

( Tómas Guðmundsson )

Ég kveð Kára son minn með sárum trega. Hann kenndi mér það sem er mikilvægast í lífinu, þakklæti fyrir allt það góða sem manni hefur verið gefið og að æðrast ekki  yfir því sem engu máli skiptir. Hvernig til hefur tekist er svo annað mál og alls ekki við hann að sakast. Hann gerði alla að betri mönnum sem honum kynntust.

Guðný Bjarnadóttir.