Brjóstagjöf

Til hamingju!

Til hamingju með fæðingu nýja barnsins! Þú ert um það bil að leggja í ótrúlega ferð í kærleika þar sem þú aflar þér þekkingar.  Það gæti hafa komið þér á óvart að frétta að barnið sé með Down-heilkenni en það verður ótvírætt fín viðbót við fjölskylduna.

Í þessu riti er útskýrt hvers vegna brjóstagjöf getur verið mikilvægur og gefandi þáttur í því að annast um barn þitt og það leggur sitt af mörkum til þess að barnið hafi það sem allra best. Þar er einnig að finna upplýsingar um tækni til að hjálpa barni þínu að fá móðurmjólk með sem bestum árangri.


 

Kostir brjóstagjafar

Það er ekki bara mögulegt að hafa barn með Down-heilkenni á brjósti, heldur færir það bæði móður og barni fjölmargt jákvætt.    

1.         Móðurmjólkin eflir ónæmiskerfi barnsins og verndar það gegn fjölmörgum sjálfnæmisröskunum á borð við glútenóþol, astma og ofnæmi.  Þetta er einkum mikilvæg fyrir börn með Down-heilkenni því þeim er hætt við veirusýkingum og sýkingum í öndunarfærum.

2.         Endurtekið sog á meðan á brjóstagjöf stendur styrkir varir barnsins, tungu þess og andlitsvöðva. Það er mikilvægur áfangi á leið til aukins málþroska síðar meir.

3.         Brjóstagjöf er hagkvæm! Hún er alltaf aðgengileg og færir barninu öll næringarefni, hitaeiningar og vökva sem barn þitt hefur þörf fyrir.

4.         Við brjóstagjöf myndast hormón sem stuðla að því að móðurlífið skreppur saman í sömu stærð og það var í fyrir meðgöngu.

5.         Það hefur sýnt sig að brjóstagjöf dregur úr hættu á krabbameini í eggjastokkum og brjóstum.

6.         Brjóstagjöf miðlar hlýju og nánd. Líkamleg snerting stuðlar að því að mynda sérstök tengsl móður og barns.

 

Að hafa barn á brjósti

Fyrstu dagar brjóstagjafar eru til þess ætlaðir að þú og barnið kynnist og að þú náir sem bestum tökum á því að gefa brjóst. Hjón verða alltaf að laga sig að aðstæðum með barn á brjósti vegna þess að hvert barn er einstakt. Eftir því sem þú kynnist barninu þínu betur, áttar þú þig á því að börn með Down-heilkenni eru með líkamleg einkenni sem gætu haft áhrif á brjóstagjöfina. Að öllum líkindum koma ekki öll neðangreind einkenni fram en það er gott að þekkja sérþarfir barnsins síns til þess að koma brjóstagjöfinni rétt af stað.

 

Að koma sér vel fyrir

Ef þú kemur barninu vel fyrir með þægilegum stuðningi, þarf það ekki að nota orku sína til neins annars en að sjúga mjólk. Góð staðsetning auðveldar barninu einnig að fá í sig sem mesta mjólk og þannig að örva framleiðslu mjólkurkirtlanna.

·       Notaðu púða eftir þörfum til þess að styðja við líkama barnsins þannig að munnur þess sé andspænis eða örlítið undir geirvörtunni.

·       Haltu barninu alltaf sem næst líkamanum svo því líði sem best og taki brjóstið sem best.

·       Ef þú finnur fyrir álagi á vöðvana, notaðu púða til þess að styðja við bak, axlir og handleggi.  Ef barnið er haft þétt upp að líkamanum, er álagið á handleggina minna. Mundu að slaka á! Mjólkin flæðir best þegar þú ert róleg og þér líður vel.

 

Að taka brjóst

·       Ef þú þrýstir smávegis mjólk út á geirvörtuna fyrir brjóstagjöf, gæti það verið barninu hvatning að taka brjóstið.

·       Gættu þess að barnið fái góða munnfylli af brjóstinu. Þannig nær barnið meiri mjólk úr því og örvar mjólkurframleiðsluna.

o   Þetta gerir þú með því að halda barninu í þægilegri stöðu, notar lausu höndina til þess að styðja við brjóstið með C-takinu, þumall að ofan, fingur að neðan, vel undir geirvörtubaugnum. Kitlaðu varir barnsins létt með geirvörtunni og bíddu þar til það galopnar munninn, þá dregur þú það þétt að brjóstinu þannig að geirvartan vísi inn í munninn. Ef það tekst ekki alveg í fyrsta sinn, vertu þolinmóð og reyndu að nýju.

Ef þú kemur barninu vel fyrir með þægilegum stuðningi, þarf það ekki að nota orku sína til neins annars en að sjúga mjólk. Góð staðsetning auðveldar barninu einnig að fá í sig sem mesta mjólk og þannig að örva framleiðslu mjólkurkirtlanna.


Tákn um að brjóstagjöf gangi vel

Kannski er greinilegasta táknið um að brjóstagjöf gangi vel að barnið þyngist eins og til er ætlast. Þó má ekki eingöngu treysta á það því börn með Down-heilkenni þyngjast oft hægar en almenn viðmið segja til um. Þú sérð ekki hvernig barnið tekur mjólkina til sín en þú getur kannað eftirfarandi til þess að tryggja að barnið sjúgi eins og til er ætlast:

·       Barnið hefur tekið góða munnfylli af brjóstinu þannig að gómarnir geti þrýst saman mjólkurrásunum sem liggja að baki geirvörtunni. Geirvartan dregst langt aftur í munninn á meðan barnið sýgur.

·       Haka barnsins þrýstist inn í brjóstið og nefið hvílir létt á brjóstinu.

·       Tunga barnsins er eins og skál undir brjóstinu. Þú sérð tunguna með því að draga neðri vörina varlega niður. Tungan ætti þá að sjást á milli brjóstsins og góms.

·       Munnur barnsins hefur tekið brjóstið tryggilega. Þegar þú vilt taka barnið af brjóstinu, er best að losa takið með því að renna hreinum fingri inn í annað munnvik þess og þrýsta mjúklega á brjóstið nálægt vörunum

Það tekur að jafnaði eina til tvær mínútur áður en barnið byrjar að sleppa brjóstinu. Á meðan sýgur það hratt og stansar eftir þrjú til fjögur sog til þess að kyngja og anda.  Þegar það slakar á takinu, fer það að sjúga hægar og lengur, yfirleitt þannig að hlé verður á milli. Hlustaðu eftir hljóðum sem sýna að barnið kyngir með um það bil tveggja til þriggja sekúndna millibili. Það getur reynst mjög erfitt að heyra þegar barnið kyngir. Gagnlegt gæti verið að fá aðstoð starfsmanns í heilsugæslu eða maka til þess að leggja eyrað að og hlusta í fyrstu skiptin sem barnið fær brjóst. Það má líka reyna að leggja fingur varlega undir höku barnsins, þá ættir þú að finna mjúklega og endurtekna hreyfingu þegar kyngt er.


 

Mögulegir áhrifavaldar

 

Lág vöðvaspenna

Börn með Down-heilkenni hafa oft lága vöðvaspennu, þar með talinn slakur vöðvastyrkur í tungu og vörum, og þess vegna er sérstaklega nauðsynlegt að styðja vel við höfuð barnsins við brjóstagjöf. Það er hægt að halda barninu á ýmsa vegu á meðan það fær brjóst til þess að styðja við höfuð, háls og efri hluta baks. Ef þú styður mjúklega en örugglega við hnakkann, hjálpar þú því við að sjúga vel án þess að þreytast. Það er engu að síður mikilvægt að þrýsta ekki um of á hnakkann vegna þess að þá tekur barnið brjóstið ekki nógu vel.

 

Kjöltustellingin

Kjöltustellingin gerir þér kleift að styðja vel við höfuð barnsins á meðan á brjóstagjöf stendur. Haltu barninu með handleggnum öðru megin á meðan það er á brjósti hinum megin (þ.e. með hægri handlegg ef það drekkur úr vinstra brjósti).

Hafðu höndina þannig að þú styðjir eins og kragi við háls þess og höfuð á meðan líkami þess liggur á framhandleggnum endilöngum. Lausa höndin heldur við brjóstið og stillir það af. Þessi staða tryggir þér góða yfirsýn yfir barnið á brjóstinu og hjálpar þér að styðja við bæði höfuð og líkama. Styddu  við bakhluta höfuðsins svo barnið geti hallað því smávegis aftur. Forðastu að halda með fingrum fyrir ofan eyrun.


 

Boltatakið

Boltatakið gerir þér líka kleift að styðja við höfuð barnsins þannig að þú sjáir vel framan í það og getir fylgst með því þegar það tekur brjóstið eða á í vandræðum með að sjúga.

Ef barnið á að fá hægra brjóst með boltatakinu, skaltu koma barninu vel fyrir undir hægri armkrika. Þú sérð ekki fætur þess því þær eru fastar undir handleggnum upp að síðunni. Notaðu hægri höndina til þess að koma barninu að brjóstinu.

Ef barnið á að fá vinstra brjóst, skaltu koma barninu vel fyrir undir hægri armkrika og nota vinstri höndina til þess að koma barninu að vinstra brjósti. Gott er að styðja við barnið með púða við hliðina svo þið komið ykkur sem allra þægilegast fyrir. Ef þú styður mjúklega en örugglega við bakhluta höfuðsins, hjálpar þú því við að sjúga vel án þess að þreytast. Þú ættir að styðja við efri hluta baks og háls og halda höfðinu stöðugu með fingur undir eyrum.

 

Dansstelling handar

Það er líka hægt að styðja með svonefndri dansstellingu við ungbarn sem sýgur. Sú staða hentar einkum vel börnum með lága vöðvaspennu.

Þú ferð þannig að þú styður við brjóstið með C-takinu (þumall yfir, fjórir fingur undir). Renndu höndinni fram sem styður brjóstið og styddu við brjóstið með þremur (eða fjórum) fingrum. Vísifingur og þumall ættu nú að vera fyrir framan geirvörtuna. Beygðu vísifingur lítillega þannig að hann styðji varlega við kinn barnsins öðru megin en þumalfingurinn við kinnina hinum megin. Vísifingur og þumall mynda "U" þannig að barnshakan hvílir í botni þess. Með dansstellingunni er þyngd brjóstsins haldið frá höku barnsins og því hjálpað til að halda höfðinu stöðugu á meðan það sýgur.


 

Stellingar til þess að örva mjólkurflæðið

·       Ef þér finnst barnið drekka of hratt, komdu því þá fyrir þannig að kverkar og háls séu hærra uppi en geirvartan.  Þú getur hallað líkama þínum aftur á bak með því að sitja í ruggustól, halla þér að stuðningspúða eða láta barnið sitja klofvega í kjöltu þinni. Þessi staða kemur í veg fyrir að barninu svelgist á og það hósti en við þann vanda glíma sum ungbörn með Down-heilkenni.

·       Ef mjólkin rennur hægt eða í meðallagi, skaltu reyna að koma henni til að flæða áður en þú setur barnið að brjósti.  Nuddaðu brjóstið að neðanverðu til að örva það til að gefa frá sér  mjólk. Ef þú setur hlýjan rakan klút á geirvörtuna getur það einnig örvað brjóstið til að gefa frá sér mjólk.


 

Syfja

Mörg börn með Down-heilkenni eru mjög syfjuð fyrstu vikurnar eftir fæðingu, en það getur komið niður á reglubundinni brjóstagjöf. Nauðsynlegt getur reynst að vekja barnið til að gefa því á minnst tveggja tíma fresti eða a.m.k. 8-12 sinnum á dag og þannig að tryggja nægt mjólkurflæði og að barnið fái nóga mjólk. Það getur líka reynst snúið að halda barninu vakandi á meðan það er á brjósti. Eftirmjólkin kemur í seinni hluta hverrar brjóstagjafar en hún er ríkari af fitu og hitaeiningum sem skiptir miklu máli fyrir vöxtinn. Mikilvægt er að barn þitt fái þau næringarefni.

Margar leiðir eru færar til þess að halda barninu vakandi á meðan á brjóstagjöf stendur:

·       Deyfðu ljósin svo barnið þurfi ekki að loka augunum vegna birtunnar

·       Afklæddu barnið fyrir brjóstagjöf svo því sé ekki of heitt og það sé meðvitað um snertinguna

·       Örvaðu skynjun þess með því að snerta brún ytri eyra gætilega, að strjúka handleggina eða tala við það á meðan á brjóstagjöf stendur. Snertingin og hljóðin vinna gegn syfju og hjálpa barninu að einbeita sér að verkefni sínu

·       Reyndu að setja svalan, rakan þvottaklút á maga barnsins, fótlegg eða enni. Þessi svala tilfinning vekur það örugglega.


 

Hægt er að örva barnið til þess að halda áfram að sjúga og fá í sig meiri mjólk með því að þrýsta á brjóstið og/eða færa það til á milli brjósta.

Þrýst er á brjóstið á meðan barnið sýgur en er syfjað eða sýgur ekki á skilvirkan hátt. Notaðu aðra höndina til þess að þrýsta ákveðið á brjóstið, þó ekki svo fast að það verði sárt. Barnið ætti að byrja að kyngja. Haltu áfram að þrýsta þar til barnið hættir eða dregur á ný úr því að nærast. Þegar þú slakar á þrýstingnum, fer barnið að kyngja hraðar. Þegar á því hægir, skaltu þrýsta á ný. Þrýstu aftur og slepptu þar til það hættir að virka, bjóddu svo barninu hitt brjóstið. 

Viljir þú reyna að færa það til á milli brjósta skaltu bíða þar barnið missir áhugann á því að nærast. Renndu svo fingri inn í munnvik þess til að stöðva sogið og bjóddu hitt brjóstið. Þá ætti barnið að byrja að nærast af meiri krafti. Þegar hægir á sogi barnsins á ný, færðu það til baka. Haltu þessu áfram uns barnið virðist hafa fengið nóg. Hægt er að sameina það að þrýsta á brjóstið og skipta um brjóst eða beita bara annarri aðferðinni í einu.  Þú áttar þig brátt á því hvað hentar barni þínu best.


 

Tungan þrýstist út

Börn með Down-heilkenni eru stundum með útstæða tungu sem þrýst getur á geirvörtuna. Þetta gæti gert barninu þín erfitt með að taka brjóst því það þrýsti geirvörtunni út úr munninum. Hafi barnið tekið brjóstið nægjanlega, ættir þú að geta séð tungu þess skállaga undir brjóstinu þar sem það hvílir á neðri góm. 

Þegar þú ert reyna að láta barnið taka brjóst, skaltu bíða þar til munnurinn opnast vel og tungan er frammi og niðri. Þú getur notað vísifingurinn til þess að þrýsta varlega á höku barnsins á meðan það tekur brjóstið til þess að hvetja það til að setja tunguna fram. Neðri kjálki lækkar og tungan þrýstist lengra út úr munninum.

Ekki láta það á þig fá þótt barn þitt þurfi hvatningu í upphafi til þess að hafa tunguna niðri á meðan það tekur brjóst. Þú getur notað fingurinn til þess að hjálpa barninu til að koma tungunni í rétta stöðu. Þá leggur þá vísifingur á tungu barnsins miðja og ýtir við henni svo hún bogni upp til jaðranna. Á meðan þú ýtir tungunni niður, dregurðu fingurinn smám saman út úr munninum. Gerðu þessa æfingu nokkrum sinnum áður en þú lætur barnið taka brjóst.

 

Þyngdaraukning og viðbótarnæring

Eðlilegt er talið að barn þyngist um 115 gr. á viku en algengt er að ungbörn með Down-heilkenni þyngist hægar, jafnvel þótt þau fái nóga næringu. Ef barnið fær móðurmjólkina eina saman en fær næga næringu, ætti það að vera með sex vel rakar bleiur (fleiri séu taubleiur notaðar) og hafa hægðir þrisvar til fimm sinnum á dag (frá og með fjórða degi). Eldra ungbarn gæti haft hægðir sjaldnar en þær væru þá þeim mun meiri.

Ef barnið nær ekki fullnægjandi tökum á brjóstagjöfinni eða er nógu lengi að fær ef til vill ekki eftirmjólkina, hitaeiningaríka mjólk sem kemur í lok brjóstagjafarinnar. Stundum þarf að þrýsta á brjóstið, nudda það eða færa barnið á milli brjósta tvisvar í hverri brjóstagjöf til þess að færa barninu hitaeiningaríku mjólkina.  Ef það eykur ekki mjólkurneyslu barnsins og það þyngist, er hægt að bjóða því eftirmjólkina sem viðbótarnæringu að brjóstagjöf lokinni til þess að tryggja að það fái öll nauðsynleg næringarefni. 

Betra er að forðast að gefa viðbótarnæringu á pela þar til barnið hefur verið á brjósti með góðum árangri í þrjár til fjórar vikur. Það gæti bara ruglað barnið í ríminu að fá túttur og mjólk af mismunandi tagi á meðan það er að tileinka sér móðurmjólkina vegna þess að það er nokkuð ólíkt að nærast á brjósti eða pela.

Ef þú kýst að bjóða eigin mjólk sem viðbótarnæringu, er hægt að gera það á ýmsan hátt. Ef barnið tekur brjóst og þarf viðbótarnæringu, annað hvort brjóstamjólk eða duftmjólk, er hægt að nota slöngu eða aðrar aðferðir til að sniðganga túttur. Slangan er úr mjúku plasti og hvílir á brjóstinu líkt og utanáliggjandi mjólkurrás. Þetta er gagnleg aðferð því barnið sýgur brjóstið jafnframt því að fá viðbótarmjólk úr þessari grönnu slöngu.

Það er erfitt að sniðganga pela ef barnið getur ekki nærst á skilvirkan hátt við brjóstið. Þörfin fyrir pela ætti að minnka eftir því sem barnið þroskast og vöðvaspennan eykst og sumar mæður hafa þróað aðferðir til að gefa barni sínu pela þannig að það styðji við brjóstagjöf.

Ein stærð hentar ekki öllum og heimilislæknirinn eða ráðgjafar um brjóstagjöf geta gefið góð ráð um hvaða tækni hentar þér og barni þínu.

Á meðan barn þitt er að læra að drekka á brjósti gæti þurft að gefa því viðbótarnæringu eftir flestar gjafir. Sum börn taka betur brjóst ef þau fá hluta af viðbótarnæringunni áður en það eru sett við brjóst, fremur en að bíða þess að þau verði æst af hungri.


 

Stuðningur við brjóstagjöf

Brjóstagjöf eða brjóstamjólk kemur öllum börnum vel.  Stundum þarf bara upplýsingar, stuðning og hvatningu til þess að leysa vandann, stundum þarf praktíska íhlutun og einstaka sinnum tekst það ekki að gefa barni brjóst.  Hægt er að leita stuðnings hjá ...  Ráðgjafar um brjóstagjöf geta aðstoðað við að útvega hjúkrunarbúnað og brjóstadælur.  Hjúkrunarfræðingar eða læknar geta veitt upplýsingar um aðra kosti við að gefa barni mjólk. Mundu að barnið þrífst á ást þinni ekki síður en þeirri næringu sem þú gefur því.


 

Saga móður: Sonja

Einn sólríkan dag í júní sátum við David saman á spítalarúmi, orðvana og gáttuð. Læknirinn hafði sagt okkur að nýfædd dóttir okkar, Ana Rose, væri með Down-heilkenni. Meðgangan með Önu hafði verið án vandræða og ég hafði farið í keisaraskurð líkt og þegar ég eignaðist soninn, hvað hafði eiginlega gerst?

Sælan breyttist fljótt í áhyggjur og sorg. Hvað er Down-heilkenni? Deyr Ana? Hvað gerðum við rangt? Ég var ásótt af þúsundum spurninga. Sú mikilvægasta var þó: Hvað tekur nú við?

Áður en Ana fæddist hafði ég haft son okkar Alexander á brjósti algjörlega vandræðalaust. Ég naut þess að hafa son minn á brjósti, þannig gafst okkur einstakt tækifæri til að tengjast nánum böndum. Næringin í brjóstamjólkinni efldi auk þess ónæmiskerfi hans og færði honum styrk. Ég hafði ætlað mér að njóta þess sama með dóttur okkar Önu og ég ætlaði ekki að láta Down-heilkennisgreiningu koma í veg fyrir það.

Starfsfólkið á sjúkrahúsinu hélt því ákveðið fram að börn með Down-heilkenni tækju ekki brjóst og því var það ekki vel séð hvað við vorum ákveðin í því efni. Ana fékk næringu gegnum slöngu á gjörgæslunni en við héldum áfram að fara á spítalann og svo heim aftur á nokkurra klukkustunda fresti allan sólarhringinn í von um að geta gefið Önu móðurmjólk. Því miður sýndi hún brjóstinu engan áhuga. Dag eftir dag bauð ég henni brjóst en aftur og aftur neitaði hún að taka það. Ég fylgist sorgmædd með mjólkinni renna niður kinnar hennar. Ég var að missa vonina.

Eftir þrjá daga fórum við David að átta okkur á því að kannski mynda Ana aldrei taka brjóst. Við ákváðum að gefa henni brjóstamjólk á pela, næst bestu leiðina að okkar áliti. Því miður hafnaði Ana pelanum líka. Ég var miður mín.

Upp úr miðnætti á fjórða degi í lífi Önu hringdi hjúkrunarkona nokkur, sem studdi okkur í tilraununum til brjóstagjafar, til þess að tilkynna að Ana væri enn einu sinni vöknuð til að nærast. Við David klæddum okkur og flýttum okkur til sjúkrahússins undir stjörnubjörtum himni.  Ég settist inn á gjörgæsluna og ákvað að reyna í síðasta sinn að gefa Önu brjóst. Eins og venjulega hafnaði hún brjóstinu í fyrstu umferð. Þá kom hjúkrunarkonan og sýndi mér hvernig ég gat haldið á Önu á annan hátt. Það kom mjög á óvart þegar Ana galopnaði munninn og tók brjóstið. Gat þetta gerst? Já, reyndar! Einmitt þegar ég var að gefast upp, tók Ana brjóst. Ég gladdist mjög. Tárin runnu niður kinnarnar á meðan við hjónin horfðum á dóttur okkar drekka við brjóst næstu 20 mínúturnar.

Brjóstagjafasaga okkar hefur gengið bæði upp og niður síðan þarna um nóttina á gjörgæslunni. Stundum tekur Ana brjóstið vandræðalaust, aðra daga hafnar hún því algjörlega. Það hefur kostað tíma og þolinmæði en nú er Ana orðin átta mánaða og tekur brjóst því sem næst alltaf.

Móðurmjólkin hefur haft mikil og góð áhrif á þroska Önu. Hún færir henni næringu og þess vegna hefur Ana þegar náð mörgum þroskastigum miðað við aldur og hún er fremur heilbrigt barn. Brjóstagjöfinni fylgir líkamleg nánd sem mótað hefur öflug tengsl okkar mæðgna. Tunga Önu hefur styrkst og stendur minna út úr munninum en það þakka ég líka brjóstagjöfinni. Þetta hefur verið löng og stundum erfið reynsla en ég er ánægð með að við hjónin gáfumst ekki upp. Ég hvet aðrar mæður til þess að takast á við brjóstagjöfina en það er þó ljóst að ekki taka öll börn brjóst. Það er sama hvort barnið er á brjósti, fær pela eða nærist á annan hátt, þú þarft að muna að það mikilvægasta sem þú gefur barni þínu er ást.


 

Saga móður: Julia

Bethany Kathleen var þriðja barnið okkar og eina dóttirin og hún fæddist með Down-heilkenni.  Ég hafði haft báða bræður hennar, Joshua og Joseph, á brjósti og það hafði verið alveg yndislegt.  Ég fékk mikla aðstoð og góð ráð frá La Leche League klúbbnum í heimabyggð en samtökin berjast á heimsvísu fyrir því að börn séu höfð á brjósti.  Ég man að ég heyrði reyndar mæður ræða um að ef barnið vendist mjólkurflæði úr pela gæti orðið mjög erfitt að koma því á brjóst síðar.

Þær þekktu ekki hana Bethany!

Bethany fæddist með fernu Fallots, meðfæddan hjartagalla og átti mjög erfitt með að taka brjóst.  Vöðvaspenna hennar var mjög lág.  Hún var orðin útkeyrð og sofnaði áður en brjóstið hafði brugðist við og byrjað að mjólka.  Hún fór að léttast uggvænlega hratt.  Hjúkrunarfræðingarnir í litla dreifbýlissjúkrahúsinu þar sem Bethany fæddist voru mjög örvæntingarfullir og urðu snúðugir við mig þegar ég sagði þeim að Bethany hefði aftur og aftur ekki fengið að drekka.  Ein hjúkrunarkvennanna reif meira að segja í brjóstið á mér og reyndi að neyða því inn í lítinn munn ungbarnsins!  Ég mótmælti, undirstrikaði að ég hefði mikla reynslu af brjóstagjöf og að barnið mitt þyrfti á frekari læknishjálp að halda.

Sem betur fer brást læknirinn strax við og sendi okkur Bethany á barnasjúkrahús í borg í nágrenninu.  Þar var Bethany strax sett á gjörgæsludeild nýbura og nokkrum sinnum gefin næring um slöngu í nefi.  Hún hætti að léttast innan sólarhrings. Eftir tíu daga var talið óhætt að senda Bethany heim á ný.

Allan tímann hafði ég notað brjóstamjólkurvél til þess að mjólka mig handa Bethany og mér fannst ég finna til skyldleika við kýrnar í sveitinni okkar!  Þegar við yfirgáfum sjúkrahúsið var mér gefin þrýstidæla sem virkaði óaðfinnanlega.  Ég ræktaði með mér öfluga upphandleggsvöðva!


 

Ég hélt áfram að dæla í tvo mánuði og gaf Bethany mjólkina í pela. Ég ákvað að hugsa ekki um þá staðreynd að dóttir mín tók ekki brjóst heldur einbeita mér að því að sjá svo um að hún fengi næringuna í brjóstamjólkinni á einn eða annan hátt. Mikið að mjólk rann út um munnvikin á meðan hún tók pelann og hún virtist aldrei hafa sérstaka ánægju af því að nærast. Hún fékk samt í sig mikið af mjólk og ég fór að óttast að ég mundi ekki geta mjólkað nógu mikið handa henni.

Þegar Bethany var tveggja mánaða, fórum við hana, alla pelana og brjóstadæluna í heimsókn til vina í öðrum bæ.  Eitt síðdegið komum við heim að húsinu á undan vinum okkar.  Húsið var læst og bæði pelar og dæla því lokað þar inni.  Hún varð ergileg svo ég ákvað að bjóða henni brjóst til þess að róa hana niður.  Ég varð alveg gáttuð þegar hún tók brjóstið umsvifalaust og saug af krafti án þess að dropi færi til spillis!

Bethany tók aldrei aftur pela.  Hún naut hvers andartaks í brjóstagjöfinni og að rugga í fanginu á mér - og ég naut þess ekki síður!  Ég vandi hana svo á að drekka úr bolla skömmu eftir að hún varð eins árs.  Ég er sannfærð um að hún var eins hraust og raun ber vitni fyrsta æviárið vegna þess að hún gat fengið móðurmjólk.  Ekki reyndist mögulegt að laga hjartagallann fyrr en hún var orðin þriggja ára og Bethany var áfram smávaxin en engu að síður þroskaðist hún án alvarlegra öndunarvandamála og engin hjartabilun kom fram.  Nú er hún 28 ára og enn dýrkar hún það að borða!

Börnin okkar eru hörkutól sem þrauka og standa sig oft með mikilli prýði þrátt fyrir að margt sé þeim andsnúið.