Mundu að vera alltaf eins við hana og hin börnin

Litla stúlkan á myndinni heitir Margrét Stefanía Benediktsdóttir (kölluð Stefanía) og hún fæddist í ágúst 1958.

Móðir hennar Margrét Stefánsdóttir veitti Mjólkurpóstinum góðfúslega viðtal og segir frá fyrstu árum Stefaníu.

Stefanía er yngst fjögurra systra. Þegar Margrét gekk með hana var ekki kominn neinn sónar, né legvatnsprufur og þess háttað. Ekki var því vitað um litningargallann sem hún reyndist hafa en móðir hennar sagði að eitthvert hugboð hefði sagt sér að ekki væri allt sem skyldi.

Ekki var þeim hjónum sagt frá ástandi Stefaníu þegar hún fæddist og ekki fyrr en á læknastofu þegar hún var mánaðargömul. Margrét var ein inni með barnið, eiginmaður hennar beið frammi. Læknirinn tjáði henni heldur kuldalega að telpan væri vangefin, með hjartagalla og að svona börn lifðu aldrei lengi. Við angistafullri spurningu móðurinnar um hvað hún gæti gert, var svarið: "Þér getið ekkert gert og ef þér treystið yður ekki til að hafa hana heima, getið þér sett hana á hæli." Harmi slegin fór Margrét og það kom í hennar hlut að segja eiginmanni sínum og föður telpunnar hvernig ástatt væri. Á þessum tíma voru engin tæki til að gera hjartaskurði og því var ekki hægt að gera við hjartagallan sem Stefanía er með.

Stefanía var lögð á brjóst, en brjóstagjöfin fór hægt á stað og hún þyngdist lítið og móður hennar var ráðlagt að gefa henni annað. Það gekk ekki, hún kokaði og kúgaðist á pelanum og grautnum. Brjóstið tók hún aftur á móti og því tók móðir hennar þá ákvörðun að það skyldi hún fá. Eldri systurnar höfðu ekki verið á brjósti, þær elstu tvíburar, fæddar talsvert fyrir tímann og þar sem Margrét var fastmjólka og þær urðu að þyngjast, þá kom á þessum tíma ekkert annað til greina en peli. Sagan endurtók sig svo með þá þriðju, brjóstagjöf hafði heldur ekki gengið.

Margrét þakkar brjóstagjöfinni það að Stefanía var heilsuhraust sem lítið barn og alls ekki pestsækin, en Stefanía var mest allt fyrsta árið á brjósti og lengi vel eingöngu vegna þess hve illa gekk að gefa henni mat. Hún þreifst vel á brjóstinu þrátt fyrir hæga byrjun. Margrét fékk hjúkrunarfræðing heim til sín, sem viktaði Stefaníu. Sú hafði samband við gamlan heimilislækni fjölskyldunnar sem hætt var störfum vegna aldurs, Katrínu Thoroddsen, sem svo kom í heimsókn til þeirra og skoðaði Stefaníu.

Margrét telur að hún hafi að mörgu leyti verið langt á undan sinni samtíð og frá henni fékk hún bestu ráðin m.a.: "Mundu það að vera alltaf eins við hana og hin börnin" og það hafði Margrét að leiðarljósi í gegnum árin. Þegar Stefanía var fimm ára, tókst móðir hennar að fá inni á leikskóla fyrir hana hluta úr degi, en þá var hún þegar byrjuð að læra stafina. Þetta mætti nokkurri mótstöðu, m.a. sagði sálfræðingur við hana að hún ætti alls ekki að kenna henni stafina, hvaða gagn hún teldi að væri af því. En Margrét fór sínu fram og Stefanía hefur alla tíð haft mikla ánægju af því að lesa.

Viðtalið birtist í Mjólkurpóstinum, 1.tbl. 10.árg. 1995. Birt með leyfi ritstjóra Mjólkurpóstsins.